Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Hugað að útgerð og fiskvinnslu

Article Index

Hugað að útgerð og fiskvinnslu

Afskipti félagsins af fiskvinnslu stóðu á talsvert gömlum merg þegar hér var komið, og þá var stutt yfir í að það færi að taka þátt í fiskiskipaútgerð. Þetta mál kom til umræðu á fundi 1951, sem samþykkti að leggja fram hlutafé í fyrirtæki sem þá var hugmyndin að stofna til togarakaupa. Ekki varð þó af stofnun þessa fyrirtækis að sinni. Þetta sama ár var einnig til umræðu að félagið keypti hraðfrystihús sem var á Drangsnesi, en náði ekki samþykki félagsmanna.

Árið eftir, 1952, var til umræðu að stofna sérstakt félag út úr Kf. Steingrímsfjarðar í Kaldrananeshreppi. Það ár var samþykkt tillaga á aðalfundi Kaldrananeshreppsdeildar sem hljóðaði svo: "Fundurinn skorar á stjórn KSH að undirbúa nú þegar skipti á Kf. Steingrímsfjarðar, þannig að Kaldrananeshreppur geti orðið sér kaupfélag, og sé afhentur sinn hluti af eignum og sjóðum KSH eins og lög standa til. " Aðalfundur félagsins afgreiddi málið með svohljóðandi samþykkt: "Leiði skoðanakönnun í ljós í Kaldrananeshreppsdeild að meirihlutavilji sé fyrir hendi að skipta kaupfélaginu ásamt eignum og sjóðum þess, felur aðalfundur stjórn KSH allan undirbúning skiptanna og leggja málið fyrir næsta aðalfund." Þessi tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, en til skiptanna kom aldrei.

Félagslega hliðin á starfsemi Kf. Steingrímsfjarðar var ekki vanrækt á þessum árum. Árið 1953 var stofnaður ferðasjóður af fulltrúum á aðalfundi til þess að standa fyrir ferðum í önnur byggðarlög og til annarra kaupfélaga. Fyrsta ferðin var farin 1954 og voru þátttakendur félagsmenn úr tveim til þremur deildum í ferð. Þessar ferðir urðu mjög vinsælar í bili, en lögðust svo af í kringum 1960.

Árið 1955 var samþykkt að hefja slátrun í gömlu frystihúsi sem félagið hafði keypt á Kaldrananesi. Þetta var gert og slátrað þar síðan í nokkur ár. Þá var verslunarhús félagsins á Hólmavík stækkað með viðbyggingu árið 1956.

Útgerðarmálin voru áfram á dagskrá eins og við var að búast á stað sem átti mest sitt undir fiskveiðum og fiskvinnslu. Á sérstökum fulltrúafundi 28. desember 1958 var samþykkt að félagið legði fram 100 þús. kr. af 300 þús. kr. hlutafé í félagi sem verið var að stofna um kaup á 250 tonna togskipi. Fljótlega upp úr þessu var félagið stofnað og nefndist það Steingrímur hf. Það keypti nýjan 250 tonna austur-þýskan togara sem gefið var heitið Steingrímur trölIi. útgerðin gekk þó illa, og 1962 var togarinn seldur. Hlutafélagið Steingrímur leið þá undir lok.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort