Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Bruni og uppbygging

Article Index

Bruni og uppbygging

Aðfaranótt 18. september 1931 varð félagið fyrir því tjóni að eldsvoði varð í byggingum þess á Hólmavík. Brunnu nær öll hús þess þar, íbúðar og verslunarhús, sláturhús og geymsluhús. Varð engu bjargað utan nokkru af höfuðbókum. Meðal annars eyðilögðust þar fundagerðabók félagsins, höfuðbók stofnsjóðs og þær bækur sem geymdu reikninga félagsins frá byrjun. Eftir stóð aðeins lítið og nýbyggt steinhús sem notað var sem geymsla. Hús og vörur voru lágt vátryggð, svo að tjón félagsins var mikið. Varð það að mestu að afskrifa varasjóð sinn, svo að um tíma var óvíst um áframhald þess.

Í kjölfar þessa fylgdi svo geysilegt verðfall á innlendum vörum 1932 og kreppuuppgjör hjá bændum 1933-34. Allt lagt saman kostaði þetta mikla erfiðleika. Félagið tók á leigu eina stofu til skrifstofuhalds, og vörur voru afhentar í sama húsi og þær voru geymdar í. Viðskiptavinum og starfsfólki var skiljanlega að þessu mikið óhagræði.

En hús voru byggð að nýju, sláturhúsið 1932, verslunarhús og íbúð 1934 og kjötfrystihús 1936. Með kaupunum á húsum Riisverslunar 1937 mátti svo heita að félagið hefði aftur eignast nægan húsakost til starfsemi sinnar. Síðan var svo, á árunum 1943-45, byggt hraðfrystihús með aðstöðu til að taka á móti 20-30 tonnum af fiski á dag. Var þetta frystihús lífæð útgerðar og atvinnu manna á staðnum. Í húsakynnum frystihússins var einnig rafstöð sem kauptúnið fékk allt sitt rafmagn frá.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort