Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Söludeild

Article Index

Söludeild

Það kemur fram bæði í lögunum og úrdrættinum úr stofnfundargerðinni að þegar í byrjun hafa menn verið með hugmyndir um að setja á stofn á Hólmavík verslun, eða það sem á þessum tíma er nefnt "söludeild". Af þessu varð ekki alveg strax, heldur var verslað með pöntunarfélagsfyrirkomulagi fyrstu árin.

Breytingin kom hins vegar 1902. Snemma á því ári fór Guðjón Guðlaugsson utan til Skotlands og Kaupmannahafnar, þar sem hann keypti talsvert af vörum er þóttu ódýrar, einkum þó álnavara og búsáhöld. Einnig kom þetta ár til félagsins skip frá Noregi með farm af salti og timbri. Og eitt af því, sem félagið fékk að utan þetta árið, var tilhöggvin grind í hús og var ekki beðið boðanna með að reisa það. Í þessu húsi var verslunarbúð niðri en íbúð uppi. Hófst þá verslunarrekstur félagsins í búð sem gekk undir nafninu Söludeild. Ýmsum þótti geyst farið í sakirnar og ef til vill af ógætni, eins og eftirfarandi vísa vottar, sem um þetta komst á kreik:

Húsið heitir hrynjandi
hjá þjóðvegi standandi,
það var byggt í bráðræði,
bæði í skuld og ráðleysi.

Næstu árin hélt pöntunarverslun þó áfram jafnhliða söludeildinni, en smádvínaði og var nánast úr sögunni um 1910.

Lýsing á húsinu er til, eftir Jóhann Hjaltason. Hann minnist þess frá árunum 1906-11 og lýsir því svo:

"Íbúðar- og verslunarhús Söludeildarinnar á fyrrnefndu tímabili var tvílyft timburhús, klætt bárujárni. Það var með kvisti á suðurhlið, en snéri göflum frá vestri til austurs og stóð á frekar lágum kjallara sem eingöngu mun hafa verið til geymslu. Í sjálfu sér er ekki rétt að segja að húsið væri tvílyft, því að efri hæðin var í raun og veru rishæð, þó að þess gætti lítt vegna þess hvað portið var hátt en þak lítið bratt. Þrátt fyrir það mun hafa verið eitthvert geymslupláss á hanabjálka eða efsta lofti. Sambyggð við þetta aðalhús, að norðan- og austanverðu, voru geymslu- eða vöruhús mörg með flötu þaki og hvert við enda annars. Munu þau öll ekki hafa verið byggð í sama sinn, en mynduðu að lokum eins konar skeifu eða húsagarð, opinn til suðurs og nokkurn veginn beint upp af Söludeildarbryggjunni."

Jóhann getur þess einnig að haustið 1910 hafi Guðjón kaupfélagsstjóri látið þilja einn kaupfélagsskúrinn í hólf og gólf og gera úr vistlega stofu. Í henni var stofnað til barnaskólahalds veturinn 1910-11.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort