Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Að lokum

Article Index

Að lokum

Það er sífellt og hápólitískt deilumál manna á milli hvort verslun og atvinnulíf landsmanna sé betur komið í höndum frjálsra félagasamtaka almennings eða framtakssamra einstaklinga, það er í formi samvinnurekstrar eða einkarekstrar. Hér er ekki vettvangur til að halda fram hlut annars rekstrarfarmsins á kostnað hins, enda skal það ekki reynt.

Hitt er þó óhjákvæmilegt að benda á að í hinum afskekktari og strjálbýlIi byggðum landsins hefur samvinnureksturinn ótvíræða kosti. þar er fyrst af öllu að nefna þá festu í atvinnulífi sérhvers byggðarlags sem traust kaupfélag skapar. Slíkt félag gefur heimamönnum verulegt öryggi; það hleypur ekki í burtu einn góðan veðurdag með fjármagn og atvinnutæki og skilur heimamenn eftir áhaldalausa til lífsframfæris.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar er gott dæmi um félag af þessari tegund.

Líkt og önnur íslensk kaupfélög stendur það fast á rót sinni í heimabyggðinni. Það er í eigu félagsmanna og viðskiptamanna sinna, og þeir beita því fyrir sig á öllum þeim sviðum þar sem úrbóta eða framfara á sviði atvinnu eða verslunar er þörf. Samvinnureksturinn á því ef til vill hvergi brýnna erindi en í þeim héruðum þar sem kaupmenn og aðrir einkaframtaksmenn keppast ekki beinlíns í hópum eftir því að ná viðskiptum. Við slíkar aðstæður hefur Kaupfélag Steingrímsfjarðar nú í rúm áttatíu ár reynst traustur og góður burðarás í atvinnulífinu á félagssvæði sínu.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort