Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Erfiðleikar hjá bændum

Article Index

Erfiðleikar hjá bændum

En ekki voru allir erfiðleikar að baki með þessu. Arið 1968 varð félaginu mjög erfitt og mikið tapár, enda rekstrarerfiðleikar jafnt hjá því og bændum. Í sumum af deildum félagsins voru þá skipaðar sérstakar nefndir til að reyna að leysa áburðarkaup og fleira sem varðaði viðskipti bænda við félagið. Í þessum nefndum voru stjórnarmenn, deildarstjórar, búnaðarfélagsformenn og oddvitar hvers hrepps um sig. Eitt af því sem kom þá aftur til umræðu var stofnun hlutafélaga um rekstur frystihúsa félagsins. Ekki varð þó heldur af því að þessu sinni.

A aðalfundi 1969 var borin fram tillaga um að leggja niður útibúið á Kaldrananesi, en hún felld með jöfnum atkvæðum. Það ár var sett upp nýtt flökunarkerfi í frystihúsinu á Hólmavík, keypt þangað ný roðflettivél og komið á bónusvinnu í fiski. Árið eftir, 1970, var byrjað að færa bókhald félagsins í tölvu Sambandsins í Reykjavík. Þá var einnig samþykkt á aðalfundi, eftir beiðni Búnaðarbanka Íslands, að ræða möguleika á að hann yfirtæki sparisjóð kaupfélagsins, sem ekki náðist þó samkomulag um í það skiptið. Aðalfundur samþykkti þá líka að leggja niður útibúið á Kaldrananesi, sem gert var um áramótin næstu.

Stjórn kaupfélagsins ákvað þetta ár að setja á stofn bensínsölu og ferðamannaverslun, en leyfi fékkst ekki hjá hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps. Þá var auk heldur byrjað á viðbyggingu við frystihúsið á Hólmavík sem hýsa skyldi kaffistofu, búningsklefa og snyrtingu, og félagið keypti danska rækjupillunarvél. Árið 1971 var bætt við annarri slíkri, og þá var viðbyggingin við frystihúsið einnig tekin í notkun. Ári síðar, 1972, voru báðar dönsku rækjupillunarvélarnar fluttar yfir á Drangsnes. Amerísk pillunarvél var þá tekin á leigu í frystihúsið á Hólmavík og annarri slíkri bætt við árið eftir.

Sláturhúsið var tekið til gagngerrar endurnýjunar á árinu 1973. Þá var skipt um allar innréttingar í því, og húsinu breytt fyrir keðjufláningu. Samtímis var húsið klætt að innan og einangrað að nýju. Þetta ár var líka hafin kvöld- og helgarsala í verslun félagsins á Hólmavík.

Árið 1973 var einnig gengið frá samkomulagi við Búnaðarbankann um að hann yfirtæki sparisjóð kaupfélagsins. Jafnframt var stofnuð innlánsdeild við félagið. Af innistæðum í sparisjóðnum fóru um tveir þriðju hlutar yfir í Hólmavíkurútibú bankans, en um þriðjungur í innlánsdeildina.

Af atburðum ársins 1974 er að nefna að þá voru skrifstofur félagsins fluttar í þann hluta verslunarhússins sem verið hafði íbúð kaupfélagsstjóra, en vefnaðarvöruverslun opnuð í því sem áður var skrifstofuhúsnæðið. útibússtjóraskipti urðu á Drangsnesi, Guðmundur Þ. Sigurgeirsson lét þar af störfum en við tók Guðmundur B. Magnússon, sonarsonur hans. Þá keypti félagið einnig aðra rækjupillunarvélina sem það hafði haft á leigu.

Flatningsvél í frystihúsið á Hólmavík var keypt 1975, og rækjupillunarvél tekin á leigu fyrir húsið á Drangsnesi. Þá var steypt ofan á veggi frystihússins á Drangsnesi, það hækkað og sett á það nýtt þak. Sama ár gerðist félagið einnig eignaraðili að nýju sumarhúsi í Bifröst í Borgarfirði. Árið eftir, 1976, voru svo keypt ísvél og frystipressa í frystihúsið á Hólmavík.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort