Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Erfið ár

Article Index

Erfið ár

Á árunum 1963-64 gekk frystihúsareksturinn hjá félaginu vægast sagt mjög illa. Þetta átti einkum við um húsið á Drangsnesi, en einnig voru erfiðleikar í rekstri hússins á Hólmavík. Ástæðurnar voru þær að kaupin og reksturinn á frystihúsinu á Drangsnesi ollu verulegum vandræðum, fyrst og fremst fyrir það að næstu árin á eftir urðu mikil aflaleysisár og framleiðslan dróst saman. Þetta gekk svo langt að haustið 1963 ákvað félagsstjórn að loka Drangsneshúsinu og gerði meðal annars um það svohljóðandi samþykkt:

"Vegna vaxandi hallareksturs á hraðfrystihúsinu á Drangsnesi á undanförnum árum, og þar sem allt bendir til þess að hann aukist stórlega á þessu ári, ákveður stjórn KSH að hætta rekstri hússins um n.k. áramót að óbreyttum aðstæðum. jafi1framt ákveður stjórnin að tilkynna hlutaðeigandi aðilum, s.s. hreppsnefnd Kaldrananeshrepps, Verkalýðsfélaginu á Drangsnesi og útgerðarmönnum á staðnum, þessa ákvörðun og tjáir sig reiðubúna að ræða við ofannefnda aðila, ef tækist að finna grundvöll að áframhaldandi rekstri hússins í einhverju formi."

Fleiri samþykktir voru gerðar um málið á þessum árum, og kom þar meðal annars fram sú skoðun að eðlilegt væri að félagið stuðlaði að því að auka atvinnulífið á félagssvæðinu, en samt sem áður yrði það að vera meginreglan að fjárhag þess væri ekki stefnt í voða með því móti. Einnig kom til umræðu um þetta leyti að stofna hlutafélag um rekstur frystihúsanna, annars eða beggja, sem ekki reyndist þó grundvöllur fyrir að sinni. Með samstilltu átaki allra, sem hlut áttu að máli, tókst síðan að koma í veg fyrir að félagið neyddist til að hætta þessum rekstri, og til lokunar kom aldrei þótt tæpt stæði.

En erfiðleikarnir voru miklir, og raunar var þarna teflt á tæpasta vað með rekstur félagsins. Síðan bættist það við að veturinn og vorið 1965 fylltust Húnaflói og Steingrímsfjörður af hafís, svo að bátar komust ekki á sjó frá því í byrjun mars og þar til í byrjun júní, eða í þrjá mánuði. Allar samgöngur á sjó tepptust jafnlengi.

Bátar frá Hólmavík og Drangsnesi höfðu í tvo til þrjá áratugi róið á vetrarvertíð með línu, en nú lagðist sú útgerð alveg niður. Kaupfélagið stóð því uppi með tvö hraðfrystihús hráefnislaus, og því voru erfiðir tímar framundan. Rekstur frystihússins á Hólmavík naut þess þó að það var jafnframt kjötfrystihús og hafði alltaf verulegan stuðning úr þeirri átt.

Einnig er þess að geta að á árunum upp úr 1960 var töluverð smásíldarveiði á Steingrímsfirði, umfram það sem áður hafði verið fryst til beitu fyrir heimabáta. Kaupendur voru útgerðarmenn suður með sjó. Langmest var veiðin þó vorið 1963, en þá voru fryst um það bil 600 tonn af síld, sem seldist svo til öll eftir hendinni. En eftir það dró bæði úr veiði og eftirspurn jafnframt því sem línu veiði dróst saman í verstöðvum á Suðurnesjum. Þetta var þó verulegur búhnykkur, bæði fyrir þá sem veiðarnar stunduðu og fyrir kaupfélagið, og menn bjuggu að þessu í mörg ár á eftir þegar harðnaði á dalnum.

Til marks um erfiðleikana á þessum árum má geta þess að á sjöunda áratugnum fækkaði íbúum Hólmavíkur úr um 420 í um 330, eða um nálægt 90 manns.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort