Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Frystihús - sláturhús

Article Index

Frystihús - sláturhús

Umsvif félagsins á Drangsnesi jukust 1959 þegar það keypti hraðfrystihúsið þar á nauðungaruppboði. Kaupverðið var rúm ein milljón króna. Sama ár voru keypt hlutabréf í Niðursuðuverksmiðju Hólmavíkur fyrir 45 þús. kr., og einnig keypti kaupfélagið það ár íbúðarhús þeirra Þorkels Hjaltasonar og Magnúsar Jörundssonar á Hólmavík til að fá lóð þess undir byggingu nýs sláturhúss. Um vorið var byrjað á sláturhúsbyggingunni, og var húsið steinsteypt og tveggja hæða, 640 fermetrar hvor hæð. Húsið var byggt á fimm mánuðum, frá maí til september, og má segja að það hafi verið sérstakt afrek byggingameistarans sem var Þorsteinn Jónsson á Hólmavík.

Tilkoma nýja sláturhússins gjörbreytti allri slátrunaraðstöðu félagsins til hins betra, en slátrun hófst í því í októberbyrjun þetta ár, 1959. Ein af afleiðingunum var sú að slátrun á Kaldrananesi lagðist niður. Þar var slátrað í síðasta skipti 1959. Árið 1960 var svo sett upp bíla vigt á Drangsnesi í samstarfi við Kaldrananeshrepp. Því var háttað þannig að hreppurinn keypti vigtina, en kaupfélagið kostaði uppsetningu og vigtarhús, gegn því að fá not af henni án greiðslu á meðan það hefði einhvern atvinnurekstur á Drangsnesi. Árið eftir, 1961, voru svo vinnslusalur og fiskmóttaka frystihússins á Hólmavík stækkuð.

Mjólkurvinnsla og mjólkursala voru mikið til umræðu á árunum 1961-65. Þá var fjallað mjög um það innan félagsins að stofna til mjólkurbús á Hólmavík,en kom þó aldrei til framkvæmda. Meðal ástæðna voru vandamál og ósamkomulag um lóð fyrir bygginguna á Hólmavík. Mjólkurmálin komu aftur til umræðu síðar, en 1976 var gerð tilraun til þess á vegum félagsins og Framleiðsluráðs landbúnaðarins að flytja mjólk frá bændum á félagssvæðinu til vinnslu á Hvammstanga og neyslumjólk aftur þaðan. Þessi tilraun stóð skamman tíma, eða aðeins fram til septemberloka þetta ár, og var þá hætt. Síðan hefur neyslumjólk verið sótt til Reykjavíkur frá Hólmavík.

Árið 1962 keypti félagið yfirbyggða flutningabifreið í fyrsta skipti. Með tilkomu hennar var síðan byrjað á verulegum vöruflutningum á milli Hólmavíkur og Reykjavíkur. Árið eftir keypti félagið svo þau hlutabréf í Niðursuðuverksmiðju Hólmavíkur sem það átti ekki fyrir, en húsnæðið var tekið til saltfiskverkunar. Sama ár var einnig hafin bygging á kjötfrystihúsi við sláturhúsið á Hólmavík. Það húsnæði var tekið í notkun 1965.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort