Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Stofnfundur

Article Index

Stofnfundur

Sögulegar heimildir er víða að finna. Í skjalasafni Sambands íslenskra samvinnufélaga eru nokkur handskrifuð blöð með litríkri frásögn af stofnun Verslunarfélags Steingrímsfjarðar í árslok 1898. Með fylgir afrit af úrdrættinum úr stofnfundargerð félagsins, sem hér verður getið, og er þessi frásögn greinilega skrifuð sem eins konar viðbót við hana. Þrátt fyrir umfangsmikla leit hefur ekki tekist að finna höfund þessarar frásagnar, en ljóst er þó að hann hefur verið vel kunnugur þessu efni. Af þeim sökum þykir ekki rétt að láta frásögn hans liggja hér í þagnargildi, þótt höfundur sé ókunnur og af þeim sökum erfiðara en ella að vega og meta heimildargildi hennar. Þar segir m.a.:

"Veturinn 1899 var kafaldasamur og fannkyngi ein hin mestu á Ströndum sem elstu menn þá minntust. Hafís rak að Hornströndum, bændur komust í fóðurþröng og urðu að reka hross og hið skjarrasta úr fé sínu suður yfir heiðar, þar var bann léttara.

Um sumarmálin var strandferðabáturinn Skálholt á áætlunarferð sinni milli Reykjavíkur og Akureyrar, með viðkomu á höfnum Húnaflóa - og vörur þangað. Skipstjóri var Aasberg, þekktur að dugnaði og samviskusemi. Er komið var að Straumnesi lá hafísinn að ströndunum svo ei sýndist árennilegt um framhald ferðarinnar. En skipstjóri lét hvorki úrtölur farþega né landsins forna fjanda hindra för Skálholts. Áfram meðan smuga var fyrir stafni. Fólk og fénaður er við dyr hungurvofunnar, þess von - við komu skipsins - að vörurnar, sem þar eru innanborðs, komist á ákvörðunarstaðinn.

Skömmu áður en þessi saga gerðist, en fönninni kyngdi niður sólarhring eftir sólarhring, lögðu tveir nágrannar að heiman frá efstu bæjum í Kollafirði, á skíðum því annarra úrkosta var ekki til að komast bæja á milli. Oft var stormasamt um hugarlönd þessara förunauta hvors til annars. En nú var hugsjónin ein, áformið hið sama.

Snjónum kyngir niður, skíðin eru knúð, hallast er fram svo skriðsins njóti betur. Þrátt fyrir það er augljóst að þar fara keikir, dugmiklir, djarfir menn sem bjóða birginn hríð og stormi á Fróni. Eða ýmsum hindrunum á leið hugsjóna til raunveruleika.

Förunautar þessir eru þeir Guðjón alþm. á Ljúfustöðum og Arnór prestur á Felli. Þeir hafa verið samstarfsmenn Torfa í Ólafsdal við Verslunarfélag Dalamanna, Guðjón í stjórnarnefnd þess, Arnór prestur endurskoðandi þess. Er að Kollafjarðarnesi kom voru þar fyrir nokkrir sveitungar, bar þar mest á að vallarsýn og persónuleika Guðmundi Bárðarsyni bónda, enda þekktur vormaður í hugsjóna- og hagsmunamálum sveitanna.

Næsti áfangi var með sjó fram, nú voru þeir fleiri, allir vissu þeir húsakynni góð og mikla rausn á Smáhömrum hjá Birni bónda og Matthildi húsfreyju. En hugsjón sú, er fyllti hugi þeirra og nú á næstu klukkustundum skyldi færð til raunhæfrar athafnar, gaf þessum fámenna ferðamannahópi mest gildi.

A Smáhömrum voru mættir nokkrir bændur úr sveitunum beggja megin Steingrímsfjarðar. Á tilsettum tíma, að undangengnu fundarboði frá Guðjóni Guðlaugssyni var fundur settur, þar sem Guðjón reifaði málið, fyrst með því að nú væri starfsgrundvelli Verslunarfélags Dalasýslu breytt. Annað að nú væri hugmyndin sú að skipta því í smærri deildir, og að sumu leyti breyta starfsfyrirkomulagi þess, taka upp sölufyrirkomulag. Þó mætti halda pöntunarfyrirkomulaginu ef það virtist hagkvæmara. Urðu umræður allmiklar, en hvernig sem þær hafa verið varð niðurstaða fundarins sú að stofna söludeild með þeim hætti sem slík félagasamtök höfðu."

Að því er best verður séð mun þessi fundur að Smáhömrum hafa verið haldinn 28. desember 1898. Daginn eftir, 29. desember, var hinn eiginlegi stofnfundur síðan haldinn að Heydalsá. Þar var formlega gengið frá stofnun Verslunarfélags Steingrímsfjarðar.

Fyrsta fundargerðabók félagsins brann 1931, eins og getið verður, en til er lítil handskrifuð minnisbók, komin frá Birni Halldórssyni á Smáhömrum, sem geymir fyrstu lög félagsins og úrdrátt úr stofnfundargerð þess. Er við það stuðst hér. Í úrdrættinum úr stofnfundargerðinni kemur meðal annars ljóslega fram að fundarmenn ætla ekki strax að hætta félagsaðild að Verslunarfélagi Dalasýslu þrátt fyrir stofnun hins nýja félags. Jafnframt óska menn þar eftir því að fá til félagsins hlutdeild þess úr svo nefndum kaupfélagssjóði Dalafélagsins, en hann var eins konar vísir að stofnsjóði, ætlaður þeim kaupfélögum sem með tímanum spryttu upp af því.

Þá er í fundargerðarúrdrættinum minnst á "húskofa" félagsins á Hólmavík, sem virðist hafa verið í eigu Dalafélagsins. Hlutanum úr kaupfélagssjóðnum er annars ætlunin að verja til vörukaupa og til húsbyggingar á "Hólmarifi" , það er á Hólmavík.

Lög félagsins, sem samþykkt voru á stofnfundinum, eru mjög ýtarleg.

Félagssvæðið er sagt vera Árnes-, Kaldrananes-, Hrófbergs-, Kirkjubóls-, Fells- og Óspakseyrarhreppur. Ekki fara þó sögur af félagsstarfi í Óspakseyrarhreppi, og deild úr félaginu hefur mönnum vitanlega aldrei verið þar. Þá er tilgangur félagsins skilgreindur rækilega, sömuleiðis skipting í deildir, hlutverk deildarstjóra og formanns, og margt fleira.
Einnig var kosin stjórn á fundinum. Guðjón Guðlaugsson á Ljúfustöðum var kjörinn formaður, Björn Halldórsson á Smáhömrum varaformaður, og Guðmundur Bárðarson á Kollafjarðarnesi meðstjórnandi. Endurskoðendur voru kosnir séra Arnór Árnason á Felli og Grímur Ormsson í Miðdalsgröf. Á fundinn mættu fulltrúar úr fimm deildum:
Árnesdeild, Kaldrananesdeild, Hrófbergsdeild, Kirkjubólsdeild og Fellsdeild. Fram kemur að þeir hafa setið tvo daga á fundi þarna. Árnesdeild var í félaginu til 1903, en varð síðar stofninn í nýju félagi sem kom til sögunnar þar nyrðra.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort