Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar

Article Index

Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík var stofnað 29. desember 1898. Stofnfundurinn var haldinn að Heydalsá, og nefndist félagið í upphafi Verslunarfélag Steingrímsfjarðar.

Tilkoma þessa félags var einn af áföngunum í baráttu fjölda landsmanna á seinni hluta nítjándu aldar fyrir því að færa verslunina inn í landið og í hendur innlendra almannasamtaka. Fyrsta meiri háttar átakið þeirrar ættar var stofnun Gránufélagsins fyrir og um 1870. Það starfaði með miklum umsvifum í allmörg ár undir ötulIi stjórn Tryggva Gunnarssonar, en leið síðan undir lok. Annað félag, og nærtækara Strandamönnum, var Félagsverslunin við Húnaflóa. Höfuðleiðtogi þess félags var Pétur Eggerz á Borðeyri, og umsvifamikil starfsemi þess spannaði árin 1869-77.

Fleiri félög um verslun komu til sögunnar, og þeirra á meðal var elsta kaupfélagið sem enn starfar, Kaupfélag Þingeyinga á Húsavík. Það var stofnað 1882 og hafði fljótt mikil áhrif sem fyrirmynd félaga í öðrum landshlutum. Naut það forystu ötulla og óhvikulla leiðtoga, sem kunnir eru úr samvinnusögunni.

Annar leiðtogi, úr öðrum landshluta, stóð þessum þó síst að baki, þótt félag hans yrði ekki eins langlíft í upphaflegri mynd. Það var Torfi Bjarnason í Ólafsdal í Dölum vestur. Torfi naut geysimikils álits meðal samtímamanna sinna, fyrst og fremst sem búnaðarfrömuður. Notadrjúgir urðu ensku ljáirnir og orfhólkarnir sem hann kenndi bændum að nota, og búnaðarskóli hans í Ólafsdal var þjóðþrifastofnun þaðan sem fjöldi ungra manna kom með haldgóða búnaðarmenntun eftir tveggja ára nám.

Eitt af áhugamálum Torfa í Ólafsdal var stofnun og rekstur verslunarfélaga. Var hann í því efni undir sterkum áhrifum frá skoðunum Jóns Sigurðssonar forseta og hvattur af örvunum hans. Torfi lét ekki sitja við orðin tóm heldur stofnaði Verslunarfélag Dalasýslu árið 1886. Það var með pöntunarfélagssniði líkt og flest elstu félögin og seldi einnig innlendar landbúnaðarafurðir. Persónuleg áhrif og leiðsögn Torfa ollu því að þetta félag náði fljótlega útbreiðslu um ótrúlega víðlent svæði. í byrjun náði það yfir Dalasýslu, og hluta af Snæfellsness og Barðastrandarsýslum, en síðar bættust við félagsmenn í Strandasýslu og Vestur-Húnavatnssýslu. Félagið var geysiöflugt um tíma og gerði almenningi mikið gagn.

Hugmynd Torfa mun hafa verið sú að upp úr Verslunarfélagi Dalasýslu skyldi með tíð og tíma stofna kaupfélag eða -félög. Með kaupfélagi hafði hann í huga félag að breskri fyrirmynd, sem ræki verslun, seldi vörur á markaðsverði en greiddi arð til félagsmanna eftir á að loknu uppgjöri og framlagi í sjóði. Í því skyni gekkst hann fyrir því að félagið hóf sjóðasöfnun með því að leggja álag á vörur, og ritaði hann um öll þessi efni merka grein í Andvara 1893. Voru sjóðahugmyndir hans mjög sömu ættar og það sem síðar varð um stofnsjóðina í kaupfélögunum.

Reyndin varð svo sú að upp úr Verslunarfélagi Dalasýslu voru stofnuð kaupfélög, og reyndar býsna mörg. Eitt þessara félaga var Verslunarfélag Steingrímsfjarðar, síðar Kaupfélag Steingrímsfjarðar. Líkt og Dalafélagið áður naut það þess happs að eiga traustum leiðtoga á að skipa. Mun velgengni þess framan af ekki síst hafa verið öruggri stjórn hans að þakka. Þessi maður var Guðjón Guðlaugsson alþingismaður, löngum kenndur við Ljúfustaði. Hann stýrði félaginu farsællega fram hjá öllum boðum fyrstu tvo áratugina, eða á meðan það var að slíta bernsku skónum og ná fótfestu. Hann hafði stundað nám um skamma hríð hjá Torfa í Ólafsdal og meðal annars hrifist af skoðunum hans um sjóðasöfnun félaganna. Ritaði hann um það efni greinargóða hvatningargrein í Tímarit kaupfélaganna 1897.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort